Neysti Hringadróttinssögu.

 TYRFINGUR 

Hervarar saga og Heiðreks. Ef til vill er ofurlítinn sannsögulegan kjarna að finna í þeim sögnum sem varð-veist hafa á Norðurlöndum í tengslum við sverðið Tyrfing. Þegar Húnar ruddust yfir Evrópu nálægt árinu 375 reyndi Jörmunrekur (Ermanrik)konungur (sjá bls. 235) að veita þeim viðnám en beið ósigur og svipti sig þá lífi. Ríki hans leystist í sundur.Ekkert af germönskum sögum eða kveðskap um þessa eða aðra hrikalega viðburði á þjóðflutningatímanum hefur borist beint til seinni kynslóða. Þó má greina enduróm þeirra í norrænum miðaldabókmenntum. Ein af fornaldarsögum Norðurlanda hefur verið nefnd eftir skjaldmeynni Hervöru og Heiðreki konungi. Í henni eru mörg kvæði sem sagan er ofin um, og eitt þeirra(`Hlöðskviða') er reist beint eða óbeint á fornum germönskum hetjukveðskap um baráttuna milli Gota og Húna. Örnefni í kvæðinu minna enn á þær slóðir þar sem gert er ráð fyrir að atburðirnir hafi átt sér stað. Dúnheiði er sléttlendið við Dóná, í árheitinu Danp má þekkja Dnépr; Harvaðafjöll eru nefnd og mun þar átt við Karpatafjöll, En þar með er upp talinn hinn sögulegi raunveruleiki. Hervarar saga og Heiðreks er sett saman úr einstökum, óskyldum þáttum, mörgum harla ævintýralegum og eru þeir einungis lauslega tengdir með hugmyndinni um hið fræga sverð Tyrfing. Sagan hefur enga sannsögulega þætti að geyma í þeim skilningi að hægt sé að sanna að einhverjir raunverulegir atburðir búi þeim að baki. Þar er einungis eitt einstakt óljóst minni um spennu og átök á þjóðflutningatímanum milli Húna og germanska Gotaríkisins við Svartahaf. Allt hitt er verk sagnamannsins og skáldsins: 

Sverð dvergsins:

 Sigurlami, sonarsonur Óðins, var konungur í Garðaríki. Dag einn reið hann til veiða í skóginum og elti hjört einn svo lengi að sólin var sest er honum tókst að fella hann. Þá hafði hann riðið svo langt að hann vissi tæpast hvar hann var staddur. Hann sá stóran stein framundan og hjá honum tvo dverga. Konungur vígði þá utan steins með málasaxi,*) en þeir báðu sér fjörlausnar. Þeir nefndust Dvalinn og Dulinn. Hann setur þeim þá kosti að smíða handa sér sverð með öllum þeim hagleik er þeir ráði yfir. Skuli það hvorki bresta né ryðga og bíta á járn og stein sem klæði væri,  því skyldi jafnan fylgja sigur hvort sem væri í orrustu eða einvígi. Dvergarnir urðu við kröfu hans og á stefnudegi kom Sigurlami aftur til steinsins. Dvergarnir fengu honum sverðið og var það hinn fegursti og ágætasti gripur sem nokkru sinni hafði sést, með gylltum hjöltum og skínandi brandi. En í sama bili og Dvalinn gekk inn í steininn sneri hann sér að Sigurlama og batt sverðið álögum. Mælti hann svo um að í hvert sinn er því væri brugðið yrði það manns bani, einnig skyldi það verða Sigurlama sjálfum að bana og þrjú stór níðingsverk með því unnin. Í bræði sinni hjó konungurinn til dverganna en þeir hlupu í steininn, dyr hans lukust aftur en sverðið gekk á kaf í hann. Sigurlami kallaði sverðið Tyrfing og varð sigursæll með þetta vopn í mörgum orrustum og einvígum. 

Arngrímssynir.

 Arngrímur berserkur á Bólmi fór í víking og herjaði í ríki Sigurlama. Konungur hélt í mót honum og áttust þeir vopnaskipti við. Með Tyrfingi sneið Sigurlami sundur skjöld Arngríms og nam sverðið í jörðu staðar. Áður en Sigurlami gat kippt sverðinu upp hjó Arngrímur af honum höndina, greip Tyrfing og vó Sigurlama með hans eigin sverði. Fór þetta svo sem Dvalinn hafði sagt. Arngrímur tók síðan mikið herfang og þar með Eyfuru, dóttur Sigurlama Gerði hann brúðkaup til hennar er hann kom heim í Bólm. Þau eignuðust tólf syni og voru þeir allir berserkir ofsafengnir.Hét hinn elsti þeirra Angantýr og annar Hjörvarður. 

Arngrímssynir voru oft í hernaði, vor þeir jafnan tólf saman og fundust engir þeirra líkar. Það var venja þeirra, þegar berserksgangurinn rann á þá, að gangaland og glíma við stóra steina og tré uns af þeim rann móðurinn. Áður hafði þeim eitt sinn orðið á sá voði í berserksgangi að drepa sína eigin menn og linntu þeir þá eigi fyrr en þeir höfðu hroðið skip sín. Urðu þeir að lokum svo frægir að allir konungar gáfu þeim það er þeir vildu hafa og þorði enginn í mót þeim að mæla.Það var tíðinda jólakvöld eitt á Bólmi að menn strengdu heit að bragarfulli að fornum sið. Þá strengdi Hjörvarður þess heit að eiga Ingibjörgu dóttur Yngva Svíakonungs í Uppsölum. Hún var fræg um öll lönd að fegurð og atgervi. Um vorið héldu þeir bræður til Uppsala og gengu fyrir konungs borð og sat konungsdóttir þar hjá honum. Hjörvarður segir konungi erindi sitt og biður hann veita skjót svör. Konungur hugsar málið og veit eigi hvernig við skuli bregðast. Þá gekk fram hirðmaður hans, Hjálmar hinn hugumstóri, og bað konung minnast þess hversu mikla sæmd hann hefði unnið honum í orrustum, landvinningum og landvörnum. Og nú biður hann konung að gefa sér dóttur sína sem sér hafi lengi leikið hugur á. Væri það og maklegra að gifta hana heiðarlegri hetju en berserki sem illt eitt hafi gert, bæði í ríki Yngva og annarra konunga. Konungi þótti nú vandinn hálfu meiri en fyrr og vissi ekki hverju svara skyldi. Að lokum bað hann dóttur sína að taka ákvörðun sjálfa. Hún þurfti ekki að hugsa sig lengi um áður en hún valdi Hjálmar.Hjörvarður skorar þá Hjálmar á hólm í Sámsey og segir hann verða hvers mannsníðing ef hann gangi að eiga stúlkuna áður en einvígið sé reynt. Fara nú Arngrímssynir heim.

Bjartmar jarl var vígamaður mikill og góður vinur Arngríms. Hann hélt þeim bræðrum veislu mikla og var þar drukkið brúðkaup þeirra Angantýs og Svávu, dóttur Bjartmars. Eftir veisluna bjuggust þeir bræður til hólmstefnu og fór til Sámseyjar, Angantýr hafði þá sverðið Tyrfing sem faðir hans hafði gefið honum. 

Einvígi Hjálmays og Angantýs. 

Þegar bræðurnir tólf komu til eyjarinnar sáu þeir hvar tvö skip lágu við eyna í Munarvogi og vorn hundrað menn á hvoru skipi. Þeir þóttust vita að Hjálmar mundi þessi skip eiga og Oddur hinn víðförli er kallaður var Örvar-Oddur. Og þá brugðu Arngrímssynir sverðum og bitu í skjaldarrendur og kom á þá berserksgangur. Réðust þeir þegar til atlögu og linntu eigi fyrr en þeir höfðu hroðið skipin og drepið hvern mann en liðsmenn Hjálmars vörðust vel og vildu eigi flýja.Þeir Hjálmar og Oddur höfðu áður gengið á land til að svipast um eftir þeim Arngrímssonum og meðan þeir leituðu komu berserkirnir til skipa þeirra. Eftir að Arngrímssynir höfðu hroðið skipin gengu þeir á land og héldu þeir allir nema Angantýr, að Hjálmar og Oddur væru meðal hinna föllnu. Var þá farinn af þeim berserksgangurinn og voru þeir máttfarnir eftir stórvirkin.Hjálmar og Oddur sáu berserkina koma með blóðug vopinin frá skipunum og bjuggust ekki við að komast lifandi frá eynni. En ekki vildu þeir flýja og ákváðu að mæta örlögum sínum með karlmennsku. Þeir sáu að Angantýr hafði Tyrfing í hendi því að af honum lýsti sem sólargeisla. Oddur var í skyrtu sem eigi bitu vopn og vildi hann berjast við Angantý. En Hjálmar gat ekki unnt félaga sínum að vinna mesta þrekvirkið í bardaganum og krafðist þess að berjast við foringja þeirra bræðra. Svo varð sem Hjálmar vildi og gekk hann í mót Angantý en Oddur skyldi fást við hina ellefu.Fyrir bardagann afréðu þeir Hjálmar og Angantýr að sá þeirra, sem bæri hærra hlut, skyldi ekki taka vopn hins að herfangi heldur verpa haug yfir hann og grafa hann með öllum herklæðum og vopnabúnaði. Síðan börðust þeir hart og lengi og veittu hvor öðrum stór sár. En þegar Oddur og bræður Angantýs ellefu höfðu horft á þessa viðureign um hríð gengu þeir brott og bjuggust til bardaga annarstaðar. Þeir bundu fastmælum að þeir bræður skyldu eiga við Odd einn í einu en ekki ráða á hann allir í senn. Hjörvarður gekk fyrstur fram og féll hann fyrir Oddi eftir skamma viðureign, og þótt liðsmunur væri mikill lauk skiptum þeirra svo að Oddur stóð einn uppi. Var hann þá ákaflega móður en ekki sár.Oddur gekk nú þar til er þeir Hjálmar og Angantýr höfðu barist. Var Angantýr þá fallinn en Hjálmar særður til ólífis og fölur sem nár. Hann bað Odd draga gullhringinn af armi sér  og færa Ingibjörgu hann ásam hinstu kveðju sinni.Eftir það deyr Hjálmar en Oddur sat hjá honum náttlangt. Daginn eftir lét hann bændur í eynni gera stóra hauga og í þeim jarðaði hann berserkina og vopn þeirra. En lík Hjálmars bar hann út á skip sitt og sigldi heim til Svíþjóðar. Þar segir hann þessi tíðindi. Ingibjörg konungsdóttir mátti eigi lifa eftir og brast hjarta hennar af sorg er hún spurði að Hjálmar var fallinn. Liggja þau bæði í einum haugi.  

Hervör.

Bjartmari jarli þótti mikill skaði að falli Arngrímssona og Svava dóttir hans syrgði Angantý mjög. Hún var með barni og fæddi meybarn stórt og fagurt. Þótti flestum ráð að barnið væri borið út en jarl vildi að hún lifði því að honum fannst það skylda sín að styðja ætt Arngríms eftir megni. Vænti hann þess að dóttir Angantýs yrði móðir hraustra manna. Hún var kölluð Hervör.Ólst hún upp hjá jarli og varð sterk sem karlar. Sinnti hún lítt kvenna iðju en tamdi sér að fara með boga, sverð og skjöld. Gerði hún oftar illt en gott, og er henni var það bannað hljóp hún á skóga og drap menn til fjár sér. Er Bjartmar fregnaði þetta fór hann og tók hana höndum en marga menn úr liði jarls felldi hún áður en þeir náðu henni. Eftir það dvaldist hún heima um stund en hélt uppteknum hætti. Eitt sinn er hún var úti stödd reyndi hún að gera þrælum illt sem öðrum. Einn þrællinn segir þá að ills eins sé af henni að vænta, jarlinn héldi faðerni hennar leyndu því að faðir hennar hafi verið svínahirðir og hinn versti fantur. Hervör varð afar reið við þessi orð, hún gengur þegar fyrir jarl sem segir henni að Angantýr sé faðir hennar. Hún ákveður þegar í stað að vitja haugs hans í Sámsey. 

Hervör sækir Tyrfing. 

Hervör fór ein saman að heiman og hafði karlmanns búnað og vopn. Hún gekk í lið víkinga og nefndist Hervarður, og innan skamms varð hún foringi þeirra. Herjuðu þeir víða en komu að lokum til Sámseyjar og lágu þar við akkeri. Vildi Hervarðurgsanga þar á land en enginn manna hans þorði að fylgja honum. Sögðu þeir svo marga óvætti vera þar á ferli að þar væri verra úti að vera um bjartan dag en umnætur annarstaðar.Lyktir málsins urðu þær að Hervör tók bát og reri ein til lands. Sté hún á land við sólarlag og lék þá eldur yfir haugunum. Gekk hún uns hún kom þangað sem Oddur hafði jarðað berserkina. Hún sneri sér að stærsta haugnum, ávarpaði Angantý og bað hann vakna. Hún minnir hann á að hún sé einkadóttir hans og eini erfinginn og krefur hann um sverðið sem Sigurlami fékk hjá dvergunum. Hún ávarpar Arngríms syni alla og að lokum særir hún þá með svo hörðum orðum og hatrömmum að Angantýr andmælti dauður úr haugi sínum og reyndi að telja hana á að hætta við fyrirætlan sína. En ótti var ekki til í hennar brjósti og skipar hún honum enn að fá sér sverðið. Þá opnaðist haugurinn og var sem logi léki um hann allan og Angantýr kveður upp þann spádóm að Tyrfingur muni tortíma allri ætt hennar ef hún fái hann. En hún hélt fast við ásetning sinn og var sverðinu þá kastað út til hennar úr hauginum. Hervör kvaddi hina dauðu og gekk til strandar.En víkingarnir, liðsmenn hennar, höfðu orðið skelfingu lostnir af hræðslu við drunur og elda í eynni; höfðu þeir létt akkerum fyrir löngu og siglt brott. Varð hún því að fá sér far með öðru skipi og kom til hins aldna konungs Goðmundar á Glæsivöllum. Enn nefndist hún Hervarður og héldu allir að hún væri karlmaður. Dag einn, er konungur lék skáktafl og hallaði mjög á hann, gekk Hervör til hans,gaf honum viturlegt ráð svo að hann vann taflið. Hún hafði lagt Tyrfing í sæti sitt meðan hún gekk að taflinu. Þá tók maður nokkur Tyrfing upp og brá honum. Allir dáðust að skínandi brandinum og gylltum meðalkaflanum. En er Hervör sá þetta þreif hún af honum sverðið og hjó hann banahögg. Síðan gekk hún út og vildu menn hlaupa eftir henni en Goðmundur bað þá að vera kyrra því að hann grunaði að Hervarður væri kona og að hefndin yrði dýrkeypt áður en þeim tækist að ná lífi hennar. Síðan fór hún á ný langa stund í víking en hélt svo heim til jarls, móðurföður síns. Tók hún þá upp háttu annarra meyja og fékkst við vefnað og hannyrðir. Fór brátt mikið orð af fríðleika hennar og örlæti.  

Fyrsta níðingsverk Tyrfings. 

Höfundur, sonur Goðmundar á Glæsivöllum, bað Hervarar og fékk hennar. Goðmundur hélt brúðkaupsveisluna og gaf syni sínum ríki og konungsnafn. Þau Höfundur og Hervör unnust mikið; þau áttu tvo syni, Angantý og Heiðrek. Angantýr var líkur föður sínum að skaplyndi og vildi hverjum manni gott og unni Höfundur honum mikið. En Heiðrekur var grimmúðugur í geði og gerði margt illt. Hervör unni honum mikið. Fóstri Heiðreks hét Gissur; hann var vitur maður og hjá honum var Heiðrekur til átján ára aldurs.Eitt sinn efndi Höfundur til veislu en bauð Heiðreki ekki. Fór hann þá óboðinn til hallarinnar. Faðir hans fagnaði honum lítt en það gerðu hinsvegar móðir hans og bróðir og báðu hann sitja hjá sér. Höfundur gekk snemma til hvílu en hinir sátu lengi að drykkju. Heiðrekur stofnaði til sundurþykkju meðal gestanna svo að veislunni lauk með því að maður var veginn. Þegar Höfundur varð þessa vís dæmdi hann Heiðrek til útlegðar úr ríkinu og kom fyrir ekki þótt Hervör og Angantýr reyndu að miðla málum. Þegar konungur reyndist ósveigjanlegur báðu þau hann að gefa syni sínum a.m.k. góðar og viturlegar lífsreglur við brottförina.Höfundur taldi að slíkt kæmi að engu haldi en þó vildi hann ekki synja Heiðrekiallrar hjálpar og færði Hervör syni sínum heilræði föður hans:

- Hjálpaðu aldrei þeim manni er svikið hefur lánadrottin sinn.

- Gefðu eigi þeim manni frið er drepið hefur félaga sinn.

- Lát eiginkonu þína ekki heimsækja ættingja sína oft þótt hún óski þess.

- Segðu frillu þinni aldrei leyndustu hugsanir þínar.

- Ríð aldrei besta hesti þínum ef þú verður að flýta þér.

- Taktu aldrei í fóstur barn manns sem er voldugri en þú.

- Rjúfðu aldrei heit um frið sem þú hefur gefið.

- Hafðu aldrei marga þræla í fylgd með þér.

Heiðrekur sagði þetta vera ill ráð og bjóst til brottferðar. Móðir hans fékk honum Tyrfing án þess aðrir sæju, en Angantýr fylgdi honum á leið. Þegar þeir kvöddust vildi Heiðrekur sýna honum sverðið og dró það úr slíðrum. Gat hann þá ekki stillt sig um að höggva bróður sinn banahögg og var það hið fyrsta níðingsverk sverðsins. Höfundur hannaði mjög dauða Angantýs og sendi menn að leita Heiðreks en hann náðist ekki. 

Annað níðingsverk Tyrfings. 

Heiðrekur hafði skamma stund farið er hann mætti nokkrum mönnum og höfðu þeir með sér einn mann bundinn. Átti að taka hann af lífi því að hann hafði svikið lánadrottin sinn. Heiðrekur minntist ráða föður síns og fékk mennina til að láta bandingjann lausan fyrir fé. Litlu síðar hitti Heiðrekur enn nokkra menn sem fluttu dauðadæmdan mann. Hafði sá myrt félaga sinn. Heiðrekur bar fé á mennina til að láta einnig þennan mann lausan.

Heiðrekur gerðist stórvikur víkingur. Hann kom sér í vináttu við Harald konungá Reiðgotalandi sem var aldinn að árum. Hann leysti konung undan yfirgangi tveggja uppivöðslusamra jarla og hlaut að launum hálft ríkið og konungur gifti honum Helgu dóttur sína. Sonur þeirra hét Angantýr. Haraldur konungur gat son í elli sinni og nefndist hann Hálfdan. Í þann tíma kom hallæri mikið á Reiðgotaland. Var þá felldur blótspónn og gekk spásögnin á þá leið að goðin krefðust þess að blótað væri þeim sveini er æðstur væri í landinu. Það hlaut annað hvort að vera Angantýr eða Hálfdan. Þeir Heiðrekur og Haraldur héldu því nú hvor um sig fram að sonur hins væri æðstur. Reynt var að fá úr þessu skorið en enginn treystist til að láta álit sitt í ljós. Að lokum urðu menn ásáttir um að biðja Höfund konung á Glæsivöllum að fella dóm í málinu. Fór Heiðrekur þeirra erinda á fund föður síns, en þegar Höfundur hafði vald á honum vildi hann þegar í stað láta drepa hann. En Hervöru tókst að sætta þá og Höfundur kvað upp þann úrskurð að Angantýr væri ágætastur sveina á Reiðgotalandi. En jafnframt ráðlagði hann Heiðreki að krefjast á þingi skaðabóta fyrir það að blóta goðunum syni sínum: Þú skalt áskilja þér í móti annan hvern mann í liði Haralds konungs og skulu þeir vinna þér trúnaðareiða. Mun þá eigi þurfa að kenna þér ráð síðan hvað þú skalt að hafast. -Þegar Heiðrekur kom heim til Reiðgotalands kvaddi hann til þings og fór allt svosem Höfundur hafði fyrir sagt. En þegar helmingurinn af mönnum Haralds hafði safnast um Heiðrek og svarið að fylgja honum til þess er hann vildi, þá tók Heiðrekur enn til orða og sagði að sér litist svo sem goldið væri Óðni ef hann fengi bæði Harald og Hálfdan í stað Angantýs. Síðan veitti hann Haraldi atgöngu og drap þá feðga báða. Var þetta annað níðingsverk Tyrfings. Helgu tók svo þungt dauði föður síns og svik eiginmannsins að hún hengdi sig. En Heiðrekur lagði undir sig allt ríkið og gerðist voldugur konungur. 

Konur Heiðreks:

Sifka, Ólöf,Sifka og Hergerður. Heiðrekur fór með her sinn suður í Húnaland og bar þar sigurorð af konungi þeim er Humli hét. Humli komst undan á flótta en Heiðrekur fékk mikið herfang og einnig tók hann dóttur konungs, Sifku, heim með sér. Hafði hann hana hjá sér um hríð en sendi hana heim aftur að sumri og var hún þá með barni. Fæddi hún svein er kallaður var Hlöður og óx hann upp í Húnalandi hjá Humla móðurföður sínum. Nokkru síðar giftist Heiðrekur Ólöfu, dóttur Áka konungs á Saxlandi. Hún óskaði oft að mega fara og finna föður sinn. Lét Heiðrekur það eftir henni því að hannvildi eigi fara að ráðum föður síns. Fór Angantýr stjúpsonur hennar jafnan meðhenni. En nótt eina kom Heiðrekur leynilega og öllum að óvörum á konungsbæinn og sá þá að maður hvíldi hjá Ólöfu. Hann vakti þau ekki en skar lepp úr hári mannsins er hvíldi hjá konu hans. Heiðrekur tók sveininn Angantý, er svaf í annarri hvílu þar í skemmunni, og hélt síðan aftur til skipa sinna og varð enginn var komu hans.Um morguninn saknaði Ólöf Angantýs og varð bæði hrædd og harmi slegin. Í örvæntingu sinni tók hún það ráð að sveipa hund líkklæðum; jarðaði hún hann síðan og sagði að Angantýr væri látinn. En skömmu síðar kom Heiðrekur til konungsbæjarins. Hann spurði hvar sonur sinn væri. Ólöf sýndi honum nýlegt leiði hans. Heiðrekur lét opna gröfina, og þegar hundshræið blasti við lét hann son sinn í fullu fjöri ganga fram og skýrði frá því hvernig drottningin hefði svikið sig. Lengi var leitað, en árangurslaust, að þeim hinum ljóshærða manni sem Heiðrekur hafði séð í hvílu Ólafar.Að lokum fannst hann í steikarahúsi.Reyndist hann vera þræll einn og hafði band um höfuð, en er það var leyst sáu allir að ljósi hárlokkurinn, sem Heiðrekur hafði meðferðis, var úr hári þessa manns. Heiðrekur lét nægja að segja skilið við konu sína og þrællinn var rekinn í útlegð. Þrátt fyrir þetta héldu þeir Heiðrekur og Áki vináttu sinni. Heiðrekur hélt nú heim í ríki sitt og sonur hans með honum. Eitt sinn, er hann herjaði á Finnlandi, tók hann að herfangi konu þá er Sifha hét eins og dóttir Humla konungs. Flutti hann hana með sér heim til Reiðgotalands.Á þessum tíma ríkti í Garðaríki Hrollaugur konungur; var hann bæði voldugrien Heiðrekur og í meira áliti. Hann átti son og dóttur er hétu Herlaugur og Hergerður. Heiðrekur fór til veislu hjá Hrollaugi og sá börnin. Var drengurinn þá tveggja ára en stúlkan eldri. Þá bauð hann Hrollaugi að fóstra Herlaug, og þótt Hrollaugur væri þess eigi mjög fús þá fór svo að Heiðrekur hafði drenginn með sér heim. Í herferðum sínum hafði hann jafnan Sifku og Herlaug með sér.Hann kom til Garðaríkis fimm árum síðar og hélt Hrollaugur honum veislu. Var Heiðrekur varkár og hafði einungis þriðjung liðs síns með sér; hina lét hann ýmist leynast í skóginum eða gæta skipanna. Dag nokkurn vildi hann reyna hollustu Sifku og sendi drenginn burt leynilega. Síðan lést hann vera mjög ókátur og trúði Sifku fyrir því gegn þagnarheiti og eiði að í veiðiferðinni hefði hann drepið Herlaug með Tyrfingi, allsendis óviljandi en tilneyddur af álögum sverðsins. Þó að Sifka hefði lofað að þegja yfir þessu fór hún til drottningar og skýrði henni frá öllu og drottning sagði konungi sem þegar í stað vildi láta drepa Heiðrek. Voru fylgdarmenn Heiðreks felldir eftir skamma viðureign en hann sjálfur settur í fjötra. Þeir tveir menn, er fastast bundu hann, voru einmitt mennirnir sem hann hafði keypt líf gegn ráði föður síns. Hrollaugur vildi láta brenna Heiðrek en liðsmenn Heiðreks, sem verið höfðu við skipin og í skóginum, gerðu áhlaup og tókst að leysa hann úr haldi. Síðan safnaði Heiðrekur miklum her og stefndi honum gegn Hrollaugi sem þá hafði fregnað að Herlaugur sonur hans var á lífi. Þótti Hrollauugi þá vænlegast að friðmælas og urðu lyktir þær að hann gifti Heiðreki dóttur sína Hergerði. Eftir það sinnti Heiðrekur aðallega friðsamlegum störfum, vann að laga- og réttarbótum og valdi tólf vitra og ráðvanda menn til að dæma í erfiðum málum. Um þær mundir lést Hervör móðir hans en Hergerður ól honum dóttur er hlaut nafn ömmu sinnar. Hervör hin unga ólst upp hjá Ormari jarli.  

Viðureign Heiðreks við Gestumblinda og Óðin  

Á Reiðgotlandi bjó ríkur höfðingi er Gestumblindi hét. Hann neitaði að greiða Heiðreki skatt og var mikil óvinátta með þeim. Konungur boðaði Gestumblinda til sín og stefndi honum á fund dómaranna tólf, en að öðrum kosti yrði hann að búast til bardaga. Gestumblinda þóttu þetta harðir kostir, hann blótaði Óðin og bað hann fulltingis. Um kvöldið var drepið þar á dyr og er Gestumblindi opnaði stóð maður fyrir utan. Nefndist hann einnig Gestumblindi. Gekk hann inn og töluðu þeir margt saman. Að lokum hét aðkomumaðurinn því að annast erindi Gestumblinda hjá konunginum og leiða mál hans til lykta. Þeir skiptu nú klæðum svo að allir héldu að aðkomumaðurinn væri bóndinn en hann hafði falið sig. Og daginn eftir fór hinn dulbúni Gestumblindi á fund konungs sem taldi þann vera kominn er hann hafði boðað og vildi konungur þegar láta dæma málið. Gestumblindi drúpti höfði og spurði hvort ekki væru fleiri undanlausnir. Lög Heiðreks konungs kváðu svo á að sá, er vitrari væri en konungurinn, skyldi vera refsingarlaus. Þess vegna hét hann því að hinn ákærði skyldi vera sýkn saka og laus allra mála ef hann gæti borið upp gátur sem konungurinn gæti ekki leyst. Gestumblindi hóf nú að bera upp gáturnar hverja af annarri en konungur leysti þær jafnharðan hiklaust og engum sýndist að Gestumblindi hefði miklar líkur á að ná sáttum í máli sínu með þessum hætti. Að síðustu spurði Gestumblindi hvaða orðum Óðinn hefði hvíslað í eyra Baldri áður en lík hans var lagt á bálið. Þá var Heiðreki loks ljóst hvern við var að eiga. Enginn nema Óðinn sjálfur gat vitað hvað hann hafði hvíslað að syni sínum dauðum. Heiðrekur brá þá Tyrfingi og hjó til komumanns en hann brást þá í vals líki og flaug á brott. Einn hirðmannanna varð fyrir högginu og hlaut þegar bana. Óðinn mælti þá svo um að hinir verstu þrælar skyldu verða konungi að bana vegna þess að konungur hafði rofið þau grið er hann setti sjálfur milli þeirra. Og skildi þar með þeim. 

Þriðja og síðasta níðingsverk Tyrfings. 

Nokkru síðar bjóst Heiðrekur konungur til ferðar um ríki sitt og hafði sett sér náttstað undir Harvaðafjöllum fyrstu nóttina. Þetta var ærið löng dagleið og lét konungur því velja hinn frásta hest sér til reiðar. Meðal fylgdarmanna hans voru níu þrælar og höfðu þeir góða reiðskjóta. Konungur reið svo mikinn að enginn gat fylgt honum nema þrælarnir og fáir menn aðrir. Komu þeir í áfangastað um kvöldið og reistu þar tjöld sín en um nóttina, er konungur var sofnaður, stóðu þrælarnir upp og drápu alla varðmennina. Síðan ruddust þeir inn í tjaldið, tóku Tyrfing og vógu konunginn með hans eigin sverði. Var þetta hið þriðja og síðasta níðingsverk unnið með Tyrfingi eftir því sem dvergurinn hafði fyrir mælt.Morguninn eftir kom meginhluti fylgdarliðsins á áningarstaðinn. Fundu þeir konung og menn hans dauða, en þrælarnir voru horfnir. Angantýr lét reisa haug mikinn þar undir Harvaðafjöllum, var Heiðrekur þar í lagður og þeir menn er myrtir voru með honum. Síðan var Angantýr til konungs tekinn yfir öll ríki Heiðreks. Hann strengdi þess heit að setjast ekki í hásæti föður síns fyrr en hann hefði hefnt hans. Hann hélt í braut einn saman og leitaði þrælanna víða. Kvöld eitt kom hann að á nokkurri og sá nokkra menn á báti að veiðum. Einn þeirra dró fisk og sneið hausinn af honum með sverði. Angantýr kenndi þegar Tyrfing. Hann leyndist í skóginum uns menn þessir reru að landi og lögðust tilsvefns í tjaldi. Um nóttina gekk hann þangað og felldi á þá tjaldið og drap þá alla, níu þræla, en tók sverðið Tyrfing og hafði með sér heim. Þar hélt hann veislu mikla á Danaparstöðum og var þar drukkið erfi föður hans. 

Angantýr, Hlöður og Hervör. Hlöður, sonur Heiðreks, ólst upp hjá Humla Húnakonungi, móðurföður sínum, eins og áður segir. Er hann spyr fráfall föður síns og að Angantýr var til konungs tekinn, þá vill hann fara og krefjast arfs af Angantý. Kom hann til Angantýs meðmiklu liði og bar upp erindi sitt; krafðist hann helmings alls þess er Heiðrekur hafði átt. Angantýr sagði að fyrr myndi koma til bardaga milli þeirra en að hann skipti arfinum til helminga. Hann kvaðst unna honum þriðjungaskiptis og væri það ekki lítið fé. Gissur fóstri Heiðreks var þá með Angantý og var hann háaldraður. Hann sagði að þriðjungur væri fullnóg fyrir ambáttarson. Hlöður reiddist mjög þessum orðum og sneri þegar í brott með alla sína menn og hélt heim til Humla konungs sem ekki var heldur ánægður er honum voru sögð ummælin. Um veturinn sátu þeir Humli og Hlöður um kyrrt en um vorið drógu þeir saman mikinn her og stefndu gegn Angantý. Á leiðinni komu þeir til borgar þeirrar sem Hervör, systir þeirra Angantýs og Hlöðs, réð fyrir ásamt fóstra sínum Ormari. Morgun einn sá hún mikla reyki í átt til skógarins og lét blása saman liði þegar í stað. En Ormar sendi hún í mót Húnum að bjóða þeim orrustu á völlunum fyrir sunnan borgina. Þetta var mikil orrusta og þegar Hervör sá lið sitt falla umvörpum fyrir ofureflinu, þá skoraði hún Hlöð bróður sinn til einvígis. En hann vildi ekki berjast við systur sína og skipaði mönnum sínum að handtaka hana. En hún barðist svo ákaft og lengi að þeir náðu henni ekki fyrr en hún féll dauð af hestinum og streymdi blóðið þá úr vitum hennar. Þegar Ormar sá fall hennar flýði hann; hann komst mjög sár á fund Angantýs og sagði honum frá árás Hlöðs og falli Hervarar. Hlöður lét reisa haug mikinn og lagði Hervöru í hann. Síðan hélt hann áfram til fundar við Angantý og mættust þeir á Dúnheiði. Hafði Hlöður sjö sinnum fleiri menn en Angantýr. Morguninn eftir hófst orrustan og voru lengi horfur á að Hlöður myndi vinna sigur. En áður en orrustan hófst hafði Angantýr sent boð um allt ríki sitt og stefnt til sín mönnum. Streymdi nú til hans dag og nótt liðsauki manna er vildu veita honum lið í bardaga. Eigi að síður var Gotum þungt í skapi og á fimmta degi orrustunnar börðust þeir einungis vegna þess að þeir vildu ekki láta Angantý einan um hituna en hann barðist sem ákafast með Tyrfingi i öndverðri fylking. Að kvöldi þessa dags kom Herlaugur, fóstursonur Heiðreks, Angantý til hjálpar með mikið lið. Snerist stríðsgæfan þá smám saman Gotum í hag og þeir urðu sigurstranglegri. Á tíunda degi orrustunnar mættust þeir Humli konungur og Ormar jarl í bardaganum og skiptust á þungum höggum; þar féll Ormar. En í sama bili hjó Gissur hinn aldni til Humla svo að hann féll dauður af hestinum. Þá reið Hlöður mót Gissuri og klauf hann í herðar niður með heljarhöggi. Síðan börðust þeir Hlöður og Angantýr lengi. Viðureigninni lauk með því að Hlöður féll en Angantýr bauð Húnum gríð og þágu þeir þau. Af hinu gífurlega herliði þeirra stóðu þá aðeins þrjú hundruð uppi og voru þeir allir sárir og örmagna. Angantýr tók lík Hlöðs úr valnum og reisti honum haug þar sem hann hafði fallið. En síðan barmaði hann sér yfir illum dómi norna og dapurlegum örlögum sem höfðu gert hann að banamanni bróður síns. Angantýr var konungur í Reiðgotalandi til dauðadags og eru frá honum komnar ágætar konungsættir. 

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband